154. löggjafarþing — 44. fundur,  6. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[19:09]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðu sem um margt var mjög góð og ég get lýst mig sammála mörgu af því sem þar kom fram. Hv. þm. Ágúst Bjarni Garðarsson fjallaði mikið um húsnæðismálin sem eru honum mjög hugleikin, enda þekkir hann þau auðvitað vel. Ég ætla að taka svolítið undir það sem fram kom að það eru margir þættir sem þurfa að leggjast á eitt til þess að við getum leyst þessa húsnæðiskrísu sem blasir við okkur. En það sem ég hef svo miklar áhyggjur af og ætlaði að fá smásamtal við hv. þingmann um er að nú erum við auðvitað í þessu vaxtaumhverfi sem við erum í í dag og það ásamt auðvitað fleiri þáttum, eins og hv. þingmaður nefndi áðan, gerir það að verkum að svigrúm eða vilji til framkvæmda og byggingar íbúða og húsnæðis á höfuðborgarsvæðinu er ekkert rosalega mikill, það er ekki mikill hvati til þess að byggja núna. Byggingarkostnaður hefur náttúrlega aukist verulega. Á meðan erum við auðvitað að spæna upp það ástand að þegar vextir lækka, hvenær svo sem það nú verður, og allt fer af stað aftur þá er svo hætt við að það myndist aftur þessi óskaplega þensla og hraði og ofvirkni á húsnæðismarkaðnum sem t.d. varð þegar vextirnir fóru niður í lítið á Covid-tímabilinu. Það sem ég hef áhyggjur af er að á meðan við erum í þessu hávaxtaumhverfi og margir halda að sér höndum — sumir geta auðvitað ekki haldið að sér höndum þegar þeir þurfa húsnæði — þá erum við í raun og veru, því miður, að byggja upp og hlaða undir og blása í næstu húsnæðisbólu. Ég hef bara verulegar áhyggjur af þessu. Þá taki við annað sveiflutímabil, húsnæðisverð hækki upp úr öllu valdi og það verður alltaf erfiðara og erfiðara fyrir fólk að komast inn á markaðinn. Þess vegna þurfum við auðvitað að hafa fjölbreytt úrræði eins og hv. þingmaður kom inn á. En ég ætlaði bara að fá kannski smásamtal um það hvort þetta sé ekki raunverulegt áhyggjuefni og hvað við getum gert til að koma í veg fyrir að þessi staða komi upp.